Fréttaflutningur af Jökulsárlóni

Lenti Jökulsárlón í höndum harðvítugra braskara við söluna á opinberu uppboði hjá Sýslumannsembættinu á Suðurlandi? Óljóst mun vera hverjir raunverulega standa að baki tilboðsgjafa en jörðin var sem kunnugt er slegin Fögrusölum ehf. sem hæstbjóðanda.

 

Snýst fréttaflutningur í fjölmiðlum þann 12. janúar um hugsanlegar bætur til handhafa hæsta boðs í jörðina við inngrip ríkisins með nýtingu forkaupsrétts? Eða snýst málið kannski um að koma hinum sársvekktu fráfarandi tilboðshöfum hæsta boðs í einhverja lykilstöðu á svæðinu við Jökulsárlónið?

 

Hafði hæstbjóðandi innt af hendi greiðslur eins og uppboðsskilmálar kváðu á um eða taldi lögmaður hæstbjóðanda sýslumannsembættið inn á að veita sérstakan greiðslufrest? Ef greiðsla fór ekki fram á réttri dagsetningu, hefði þá þegar átt að taka umsvifalaust boði næst hæsta bjóðanda. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum fékk hæstbjóðandi greiðslufrest en er enn í dag ekki búinn að greiða. Með öllu er óskiljanlegt hvernig sumir geta vaðið uppi. En ríkið reddaði þeim úr snörunni, enda voru engar greiðsluábyrgðir fram lagðar við hið lokaða uppboð. Í ljósi þessa er málflutningur varðandi liðinn frest ríkisins til að að nýta forkaupsrétt alveg óskiljanlegur.

 

Í einum fjölmiðli er því haldið fram að einn núverandi (fráfarandi) eigandi jarðarinnar sé ósáttur og telji gróflega á sér brotið. Staðreyndin er hinsvegar sú að bæði gerðagreiðendur nauðungarsölu til slita á sameign og all flestir aðrir eigendur eru sáttir og ánægðir með að ríkið skuli nýta sér forkaupsrétt jarðarinnar. Talsmaður hinna fáu sem hefur sig mest í frammi hefur þá e.t.v. annarra hagsmuna að gæta.

 

Fjölmiðlarnir virðast vera duglegir að éta upp hver eftir öðrum þannig að stormur í vatnsglasi verður að fárviðri í Bermúda-skál.

 

12-01-2017

info (hjá) jokulsarlon.info

jokulsarlon.info

Upplýsingavefur um Jökulsárlón á Breiðamerkursandi.

 

 

info (hjá) jokulsarlon.info

Made with Namu6